Skyldi hvítlaukurinn fúna undir klakabrynjunni?

Hvítlauksuppskeran í fyrrasumar var mikil og góð.

Um mánaðamótin sept./okt. settum við fjölda hvítlauka af mörgum tegundum niður í mismunandi beð, gróðurkassa, með eplatrjánum og í hraukinn (hugelkúltúrinn). Það eru mjög margar plöntur sem talið er að vilji vaxa með hvítlauk. Við vorum full bjartsýni  og hlökkuðum til uppskeru næsta árs. 

Nú erum við ekki eins bjartsýn. Fyrst snjóaði mjög mikið, svo kom þíða, en ekki nóg til að frost færi úr jörðu. Þá myndaðist klakabrynja og aftur snjóaði yfir hana. Við þessar aðstæður  er hætta á að laukurinn fúni undir klakanum.

Til öryggis ákváðum við í lok febrúar að setja niður nokkra hvítlauka. Svona ef allt fer á versta veg.

Okkur finnst borga sig að kaupa hvítlauk þó enn sé mikið til af eigin ræktun. Laukarnir okkar ná sjaldan fullri stærð og betra að setja niður vel stóra geira. 
Við höfum áður sett hvítlauk niður að vori. Þá í stóra blómapotta. Það hefur gengið vel en laukurinn verið frekar lítill.

Nú var ákveðið að prófa að nota mjólkurfernur. Þær eru ágætar til að forrækta það sem þarf að fara djúpt í moldina.Til að drena klipptum við af hornunum.

Fylltum fernurnar af mold og einn bústinn geira um 5 sm. niður í hverja fernu. Fernurnar verða til að byrja með í Gróðurskálanum. Þar er hlýrra en úti en samt mun frjósa, þannig að laukurinn ætti að skipta sér. Sjáum svo til hvort við tökum laukinn úr fernunni og setjum hann út í beð.

Verður spennandi að vita hvernig þetta gengur.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Sá og prikla og sá. Hvar á svo að koma þessu fyrir?

Að sá í 13 stiga frosti

Bogi, Örvar og Litli-Bogi