Lifðu í lukku í hreinni krukku



Við notum margar og margs konar krukkur. Það er dýrt að kaupa nýjar en sem betur fer er fólk mjög viljugt að gefa okkur notaðar krukkur. Mörgum finnst leiðinlegt að henda góðum krukkum. Það er eins og í hugum fólks séu glerkrukkur verðmætari en aðrar umbúðir. En rosalega tekur oft mikinn tíma að þrífa miðana af og það er ekki það skemmtilegasta sem við gerum. Það sem verra er, að oft er verið að gera það á aðal niðursuðutímanum og nóg annað að gera. Heyrði viðtal við konu þar sem kom fram hvað hún hefði hreinsað mörg hundruð krukkur einn veturinn. Auðvitað er þetta vetrarvinna! Nú er stefnan að taka miðana af öllum krukkunum fyrir vorið.

Hreinsað með olíu og matarsóda.
Aðferðin sem hefur reynst góð til að taka af miða, er að nota blöndu af matarsóda og olíu. Fyrst liggja krukkurnar í vatni og það mesta af miðanum er skafið af. Síðan er matarsóda- og olíumaukinu nuddað á miðaleyfarnar, látið standa þannig og síðan nuddað af. Annars eru miðarnir eins misjafnir og þeir eru margir. Stundum er nóg að láta krukkuna liggja í bleyti. Oft er hægt að kroppa hornin og rífa svo miðann af.

Þegar einhver gefur okkur góðgæti í krukku finnst okkur gott ef hún er merkt. Við merkjum okkar krukkur bara með venjulegum límmiðum og handskrifum á þá innihaldslýsingu og dagsetningu. Það er einfalt og ekki fer á milli mála að þetta er unnið heima. Stundum dettur okkur í hug að hanna smart miða og prenta út en hættum alltaf við það. Fengum krukku í fyrra þar sem hafði verið málaður flötur á krukkuna með vatnsleysanlegum þekjandi lit og skrifað svo á flötinn. Einfalt og flott.

Ummæli

  1. Dögg Proppé Hugosdóttir27. mars 2018 kl. 19:09

    Takk fyrir góðar ráðleggingar. Nú er ég með eina spurningu og það er með lokin. Ég hef stundum gefist upp á mjög fínum krukkum vegna þess að ég næ ekki lykt úr lokinu. Hafið þið lent í því og eruð með einhver ráð?

    SvaraEyða
  2. Nei, ég hef engin örugg ráð. Mér finnst alltaf best að ná lykt úr með matarsóda eða ediki. Stundum þegar mér finnst lokið ekki fallegt klippi ég smjörpappírshring og legg undir lokið. Það er auðvitað líka hægt að nota plastfilmu ef hún kemur ekki við innihaldið, er bara alltaf óörugg með hvaða efni koma úr henni. Mig langar að prófa að loka með vaxi eins og var oft gert í gamla daga.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Sá og prikla og sá. Hvar á svo að koma þessu fyrir?

Að sá í 13 stiga frosti

Fallegt verkfæri til að gera blómapotta úr dagblöðum