Bogi, Örvar og Litli-Bogi

Gróðurhús lengja ræktunartímann og gefa skjól og hita fyrir gróður sem síður þroskast úti. Ylplast með loftbili dregur úr útfjólubláum geislum, en húsin hitna fljótt ótæpilega, svo loftun þarf að vera ríkuleg og helst sjálfvirk þegar hitinn fer upp fyrir 20 gráður. Hér eru notaðar pumpur fylltar gasi sem þenst út í hita og opnar.
Bogi t.h. og Litli-Bogi. 
Fyrsta gróðurhúsið á Skyggnissteini var samsett úr tilbúnum einingum, álgrind með 3 mm smelltu plasti, svo veigalítið að það þurfti að fergja þegar hvessti og taka plastið úr á veturna. Þetta litla oddhvassa hús fékk nafnið Örvar þegar Bogi kom til sögunnar.

Örvar.

Bogi. Hálft reisingagengið mátar fyrsta bogann.

Bogi. Langbönd leggjast á bogana og á gaflana kemur trégrind.

Bogi. Langbönd skrúfuð á eyru á bogunum.

Bogi. 10 mm ylplast með loftbili festist á langbönd og botnstykki.
Eftir reynsluna af Örvari var Bogi gerður úr vel traustu efni og festur kyrfilega enda hefur hann staðið sig vel. Timbur í botnstykki og grind er gagnvarið, skrúfur, lamir og annar málmur ryðvarinn.

Litli-Bogi. Botnstykki úr gömlum staurum, grindin
 gamlir kassaplankar og vatnsvarinn krossviður.
Þegar Örvar fékk hvíldina var Litli-Bogi reistur á sama grunni, með svipuðu sniði og Bogi. Að þessu sinni voru allir 5,8 metrarnir á ylplastinu látnir halda sér og loftunin höfð á göflunum, en ekki í loftinu. Þá þarf ekki glugga í loftið, ekki hætta á leka þar og minna vindálag á gluggana. Tveimur ylplastplötum var smellt saman yfir mitt húsið og látnar ná út fyrir báða gaflana til að mynda skjól fyrir veðri og vindum. Það þarf að vera nánast logn þegar unnið er með svona stórar plötur og betra að vera samtaka þegar hjón setja saman, stilla af og festa.

Litli-Bogi. Grindin tilbúin og ylplastið á bogann samsett.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Sá og prikla og sá. Hvar á svo að koma þessu fyrir?

Fallegt verkfæri til að gera blómapotta úr dagblöðum