Sá og prikla og sá. Hvar á svo að koma þessu fyrir?


Í janúar eru fræin skoðuð, í febrúar aðeins byrjað að sá. Aukinn kraftur í mars og í apríl fer allt á fullt, allt eftir hvað á við hverja tegund. Í maí og júni er mest sáð beint út.
Til að byrja með sáum við í bakka, notum mikið ísbox, tvö saman, götum vel botninn á efra boxinu. Setjum góða gróðurmold í boxið og síðan sáðmold. Vatn í neðra boxið og gefum moldinni tíma til að drekka í sig vatnið. Þegar moldin er orðin vel rök sáum við í hana eftir leiðbeiningum á pakkanum. Leggjum dagblöð eða plast yfir boxin til að halda jöfnum raka á meðan verið er að spíra. Þegar fer að þrengja að plöntunum priklum við þær þ.e. setjum hverja plöntu í sér uppeldispott. Kosturinn við að sá í bakka er að þeir taka minna pláss en ef við sáum í potta strax. Á meðan enn er frost og kuldi verðum við að rækta í íbúðarhúsinu og það er ekki stórt.
Þegar hlýnar höfum við plönturnar í gróðurskálanum og notum olíufylltan ofn til að skerpa á hitanum ef þess þarf. Þá er lika freistandi að sá beint í pottana og sleppa við að prikla. Við setjum yfirleitt 2 fræ í hvern pott, ef þau koma bæði upp þá er best að klippa aðra plöntuna í burtu. Það er ótrúlegt hvað það er erfitt, reyndin verður yfirleitt sú að við mokum annarri plöntunni upp úr og gróðursetjum hana í nýjan pott, reynum að trufla plönturnar sem minnst.

Sum fræ þurfa góðan hita til að spíra. Plönturnar vilja flestar vaxa á kaldari stað í góðri birtu, annars er hætta á að þær verði algjörar renglur. Það er mál að finna út við hvaða aðstæður hver tegund vill vaxa. Garðheimar hafa gefið út góðan lista yfir sumarblóm, hvenær best er að sá þeim, við hvaða hitastig og hvort þau spíra betur í birtu eða myrkri. Þar er lika ágætur listi yfir ræktun á matjurtum. Síðan er hægt að leita upplýsinga í bókum og á netinu.
Það er notalegt og skemmtilegt að sá. Hættan er sú að sá allt of miklu, því ekki er allt búið þegar fræin eru komin í moldina. Hér eru myndband Auðar Ottesen um sáningu að vori.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Bogi, Örvar og Litli-Bogi

Fallegt verkfæri til að gera blómapotta úr dagblöðum