Vaxið skógi eyðist landið ekki - en hvað með virkjun?



Haukadalsskógur blasir við Skyggnissteini handan Tungufljóts í allri sinni dýrð, eftir alger umskipti á einum mannsaldri. Myndin er tekin frá Skyggnissteini. Handan Tungufljóts sést hluti Haukadalsskógar og Bjarnarfell í baksýn. Geysissvæðið á vinstri jaðri. Þegar  óveðursský seinni heimsstyrjaldarinnar voru að hrannast upp var svo komið þegar hvessti að jarðvegurinn þyrlaðist upp úr margra metra þykkum rofabörðum.

Íslandsvinurinn Kristian Kirk kom þá til bjargar, keypti landið árið 1938 og gaf Skógrækt ríkisins til skógræktar og landverndar 1940. Kirk þekkti hvernig uppgræðsla hefti landbrot á sendnum ströndum Danmerkur og vissi að vaxið skógi eyðist landið ekki. Það skýtur skökku við að hluta þessa lands Skógræktarinnar hefur verið ráðstafað undir stíflu, lón og veituskurði við virkjun HS Orku. Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Landvernd kærðu framkvæmdaleyfið og telja "framkvæmdina vera í algerri andstöðu við ákvæði gjafabréfs Kristian Kirk."



Á myndinni er horft í norður frá Skyggnissteini yfir Tungufljót. Handan fljótsins sést hluti  skógræktarsvæðis í Haukadal. Stöðvarhús virkjunar á að standa ofarlega t.h. á myndinni á bakka eystri kvíslar fljótsins, innan við 3 km frá Geysi, en um 600 metra löng og allt að 12 metra há stífla og 8,6 hektara lón eiga að vera um 1,7 km ofar.

Virkjun á þessu svæði mun hafa margvísleg neikvæð áhrif. Skipulagsstofnun segir í áliti sínu að „helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar felist í breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis... Að framkvæmdum loknum mun svæðið einkennast af misumfangsmiklum mannvirkjum og verulega skertu rennsli í Tungufljóti á um þriggja km löngum kafla... sjónræn áhrif á þá ferðamenn sem leggja leið sína upp með Tungufljóti frá núverandi þjóðvegi munu verða mjög neikvæð. …áhrif á ásýnd og landslag fyrirhugaðra framkvæmda verða talsvert neikvæð.“ Þá segir í álitinu að „Áhrif á gróður verða því staðbundið talsvert neikvæð.“

Náttúruverndarsamtökin benda líka á nálægð við eitt helsta vatnstökusvæði Bláskógabyggðar en uppsprettulindir Bláskógabyggðar eru þær mestu sem vitað er um í heiminum, að í umhverfismati séu afar takmarkaðar uppýsingar um könnun undir fyrirhuguðum stífluvegg og að allar jarðfræðilegar upplýsingar um lekt, sprungur og misgengi á framkvæmdasvæðinu vanti.








Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Sá og prikla og sá. Hvar á svo að koma þessu fyrir?

Bogi, Örvar og Litli-Bogi

Fallegt verkfæri til að gera blómapotta úr dagblöðum