Ræktunarfiðringur, flokka og skipuleggja



Um leið og fór að birta eitthvað að ráði í janúar kom upp ræktunarfiðringurinn. Kassinn með fræjunum var sóttur, farið yfir hvern pakka, skráð hvað fræin eru gömul og hvað er mikið eftir. Síðan gerður listi yfir fræin sem gaman væri að kaupa. Fræin eru síðan flokkuð og sett í poka: Rætur, krydd, kál, baunir, blóm o.fl. Þetta verða þó nokkuð margir pokar. Þegar líða tekur á vorið riðlast þetta kerfi. Þá eru komnir pokar af fræjum sem búið er að sá og aðrir sem á að sá aftur.

Það hefur verið stefna hjá okkur að rækta margar tegundir og lítið af hverju. Þetta kallar á mikið utanumhald. Það tók tíma að finna út hvað hentaði okkur best. Núna notum við töflu gerða í Word. í hverri línu er fyrst tegund, aldur fræja, afbrigði, athugasemd og áætlun, hvenær sáð, hvenær priklað, hvenær sett út, hvernig gekk og ath.

Þetta eru vel yfir 100 línur en það er ekki öllu sáð á hverju ári. Til viðbótar við þetta eru línur fyrir lauka og aðrar plöntur. Þessu er raðað þannig upp að krydd er saman í stafrófsröð, kál saman, rætur saman og svo framvegis. Á nýju ári er skjalið vistað í möppu næsta árs og texinn litaður blár. Allar nýjar færslur eru svartar og þannig er fljótlegra að sjá hvernig gekk árið áður.

Þetta reynist okkur ágætt fyrirkomulag. En þetta er mikið og auðvelt að gleyma einhverju. Þess vegna er kominn annar listi þar sem fræjum er raðað eftir hvenær á að sá þeim. Sum fræin koma fyrir oft ef það á að sá þeim oftar en einu sinni. Á þennan lista er líka skráð hvenær var sáð, í hvað miklu magni og hvenær fór að glitta í plönturnar. Það er hægt að sjá hvernig það var gert tvö ár aftur í tímann. Þetta er tvíverknaður en tilfinningin að vera alltaf að gleyma einhverju minnkar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Sá og prikla og sá. Hvar á svo að koma þessu fyrir?

Bogi, Örvar og Litli-Bogi

Fallegt verkfæri til að gera blómapotta úr dagblöðum