Á Skyggnissteini


Dagný Guðmundsdóttir og Sigurður Jónsson búa á Skyggnissteini, nyrst í Tungunum. Þau kynntust þegar Dagný var í Menntaskólanum á Ísafirði en Siggi kenndi þar íslensku. Dagný er myndlistarmaður og kennari og vann lengi á Árbæjarsafni, en Siggi íslenskufræðingur og hefur unnið að upplýsingatækni m.a. í  háskólastarfi. Svo kom að draumnum um að hverfa aftur til náttúrunnar.

Við erum með nokkrar hænur, ræktum okkur til matar og nýtum villtar og gróðursettar plöntur. Gróðurinn vinnum við með ýmsu móti til að hann nýtist okkur allt árið. Við söfnum að okkur upplýsingum og prófum okkur áfram, með hliðsjón af lífrænni ræktun og hugmyndum vistræktar (permakúltur). Við gerum tilraunir, fylgjumst með og reynum að bæta okkur. Á þessum vef höldum við utan um okkar vangaveltur og tilraunir og kannski geta aðrir haft gagn og gaman af líka.

Fyrir ofan Skyggnisstein er hálendið -  Haukadalsheiði, Bláfell og Jarlhetturnar. Handan við Tungufljót er Haukadalur, höfuðból fram eftir öldum, en á fyrri hluta 20. aldar var jörðin að blása upp og hús ónýt. Til bjargar kom daninn Kristian Kirk sem keypti jörðina og gaf Skógrækt ríkisins til landgræðslu og skógræktar árið 1940.

Skyggnissteinn er hektari af frístundalandi með bústað, smiðju, matjurtagörðum, gróðurhúsum og skógrækt. Að auki fimm hektarar af  þéttvöxnum villtum gróðri og trjáplöntum á víð og dreif upp með fljótinu og hólmi í Tungufljóti.
Svipmynd af Tungufljóti.
Djúpur jarðvegur einkennir landið og þar er mikið og gott vatn, enda mestu uppsprettulindir sem þekkjast á jörðu hér í Bláskógabyggð. Votlendið er gróskumikið með runnum, mólendi, birki- og víðikjarri, náttúrulegu og ræktuðu skóglendi. Á bökkum Tungufljóts og hólmum er gjarna blómlendi, mest alaskalúpína og hvönn og svo mosagróður.

Bústaðurinn stendur á holti á hæsta punkti landsins. Utan við húsið er sjálfur Skyggnissteinninn, gamall útsýnisstaður og landamerki. Þar er sagt að Lilja álfkona eigi heima. Við höfum reist köld gróðurhús, geymslu, jarðhýsi, hænsnahús og gufubað með viðarofni til að endurnæra lúin bein. Heitt vatn er ekki í boði eins og er þó aðeins séu um 2 km að Geysi.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Sá og prikla og sá. Hvar á svo að koma þessu fyrir?

Að sá í 13 stiga frosti

Bogi, Örvar og Litli-Bogi