Að sá í 13 stiga frosti

Það er svo margt sem mig langar að gera 

Hvernig get ég ræktað mikið af grænmeti og haft samt tíma í annað?

 Getur vetrarsáning hjálpað?

Þetta er áskorun


Safn af ílátum til að sá í. Plastgeymslukassar eru góðir. Það þarf að bora í þá loftunargöt. Líka í botninn ef það er hætta á að það rigni á kassana. Það er líka hægt að nota allskonar brúsa. Held að reynslan og hugmyndaflugið muni fjölga möguleikum.

Ég skar ofan af brúsunum. Byrjaði á að setja vikur, síðan áburðarríka mold, þar ofan á sáðmold.


Í þessari lotu 17. janúar 2024 sáði ég fyrir rósakáli, brokkelí, vetrarhvítkáli, rauðkáli, rófum, hnúðakáli, kamillu, hjólkrónu, morgunfrú, skjaldfléttu, spínati, vetrardilli og toppkáli. Blómin eru öll æt eða góð í te.  Á listanum mínum eru margar fleiri tegundir sem mig langar að prófa að sá fyrir og hafa í frostinu.
         
Hér er búið að skera brúsann, setja vikur, mold, sáðmold, fræ og snjó. 
Ég reyndi að hafa moldina aðeins raka áður en ég sáði. Setti síðan smá snjó ofan á moldina, það var að vísu bara hægt að fá harðan snjóklaka. Vonandi verður rakinn samt jafn þegar hlýnar og klakinn bráðnar. Nú á bara eftir að líma brúsann saman og merkja hann. Fara síðan með öll ílátin í Litla Boga. sem er óupphitað gróðurhús. Það er líka hægt að hafa þetta úti í skjóli.                              
          
Fyrstu mistökin voru þegar ég í hugsunarleysi tók rósakálsbrúsann upp ofarlega og mundi ekki eftir að þetta límband heldur litlu. Það var svo mikið frost að moldin var strax frosin og lítið fór úr brúsanum þegar hann datt á jörðina. Til öryggis ætla ég að sá aftur fyrir rósakáli.
Allt komið í Litla Boga. Ég freistaðist til að setja nokkra blómapotta í plastpoka, passaði að það væri góð loftun. Ég er nú ekki mjög bjartsýn á þessa tilraun.
Ég er að reyna að minnka vinnuna á vorin. Fræin fara að spíra þegar það fer að hlýna, plönturnar ættu að vera hraustar og harðgerðar við þessar aðstæður. Það er vinna að herða plöntur sem ræktaðar eru í hlýju og þurfa svo að fara út í næðinginn.
Mesti vinnusparnaðurinn væri ef ég gæti sáð beint í litla potta og ekki þyrfti að prikla. Það er nægt pláss í gróðurhúsunum en vandinn er mýsnar. Þær eru rosalega svangar þessa dagana. Ég þyrfti að vera með allt í lokuðum ílátum. Ég veit ekki hvort þetta fær frið en ég er næstum viss um að það er algjör tímasóun að sá í potta sem ekki eru músheldir.

Nú sjáum við til hvað gerist. Koma upp plöntur? Verður þetta vinnusparnaður?




Ég veit að sumir sá beint út í gróðurkassa. Mig langar að prófa það. Hvað gera mýsnar þá?
Það er hópur á f.book sem heitir Vetrarsáning. 
Ég heyrði fyrst um vetrarsáningu þegar ég keypti bók eftir hina sænsku Sarah Bäckman
Hún er með allskonar fræðslu um ræktun líka á netinu.

Ummæli

  1. Þetta finnst mér alger snilld hjá þér að setja vikur neðst! Drenar miklu betur og meira jafnvægi ætti að nást varðandi rakann.Hlakka til að geta byrjað og mun fylgjast spennt með þér.Kær kveðja
    Ransý Ásgarði

    SvaraEyða
  2. Ég hef sett plastfilmu ofan á plastumbúðirnar sem ég sái í, teygju utan um og sting svo lítil göt með nál á plastfilmuna. Það heldur góðum raka á moldinni. Veit hinsvegar ekki hvort það væri músarhelt.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Sá og prikla og sá. Hvar á svo að koma þessu fyrir?

Fallegt verkfæri til að gera blómapotta úr dagblöðum