Færslur

Sýnir færslur frá mars, 2019

Það þarf ekki allt að vera ætt

Mynd
Pelagóníur eru blómviljugar og skemmtilega gamaldags Þegar við vorum á Skyggnissteini sex björtustu mánuði ársins en í Reykjvík hina, hentaði vel að vera með pelagóníur. Á veturnar var húsið kalt en frostlaust og sjaldan vökvað. Það var gott fyrir pelagóníurnar. Núna er húsið hitað allt árið og blómin verða ræfilsleg. Einn desembermánuðinn langaði okkur ekki að skreyta með gluggana fulla af ljótum pelagóníum. Hér er ekki mikið pláss í frostlausum köldum geymslum. Ég tók það ráð að klippa af blómunum, taka þau úr pottunum, setja í plastpoka og inn í kalda geymslu.  Þegar fór að birta sótti ég pokann, klippti plönturnar meira og lét í potta með nýrri rakri mold.  Mikið sem þau voru fín sumarið  eftir.

Ull til margra hluta nytsamleg

Mynd
Ull er hlý, umvefjandi og loftar vel. Á Skyggnissteini getur orðið mjög kalt og ekki alltaf snjór til að hlífa gróðrinum. Við ákváðum að prófa að nota úrkastsullarreyfi til að verja plönturnar. Undir ullinni eru kryddjurtir, oregano, tímían o.fl. Það verður forvitnilegt að vita hvernig kryddið kemur undan reyfinu. Enn höfum við ekki fengið epli. Hvaða áhrif ætli það hafi að setja ull yfir ræturnar? Viðkvæmu rósirnar fengu lika ull en ekki heilt reyfi. Það er forvitnilegt að sjá hvernig hvítlauknum vegnar hér undir. Á vinstri myndinni er ull yfir lauknum en hey og síðan gróðurplast yfir lauknum á hægri myndinni. Í bókinni Självhushållning på Djupadal eftir Marie & Gustav Mandelmann sáum við að þau höfðu sett ullarreyfi í göngustíga á milli beða.